Bátur brann og annar sjóðhitnaði
Einn bátur brann og annar sjóðhitnaði og mátti ekki miklu muna að eldur blossaði upp í honum um miðjan dag í gær. Bátarnir stóðu á opnu svæði við Fitjabraut í Njarðvík.
Það var um miðjan dag í gær sem eldur blossaði upp í gömlum báti neðan við athafnasvæði Gámaþjónustunnar við Fitjabraut, um 100 metra frá bensínstöð ÓB í Njarðvík. Þegar slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á staðinn örfáum mínútum eftir að eldurinn blossaði upp var báturinn alelda og annar bátur sem stóð við hlið hans var orðinn sjóðheitur og byrjað að rjúka úr honum.
Ætla má að eldur hafi verið borinn að bátnum en eins og sjá má á meðfylgjandi myndum Hilmars Braga, var eldurinn mikill þegar slökkvilið kom á staðinn.