Bátar grýttir, eldsneyti stolið og brotist inn hjá Skessunni
Skemmdir voru unnar um helgina á báti í smábátahöfninni í Grófinni í Reykjanesbæ. Rúða í bátnum er brotin eftir grjótkast og þá var um 40 lítrum af bensíni stolið úr bátnum. Eigendur annarra báta í smábátahöfninni hafa orðið varir við grjóthnullunga í bátum sínum. Gera verður ráð fyrir því að grjótinu sé kastað úr landi í bátana.
Það eru ekki bara bátarnir við smábátahöfnina sem verða fyrir barðinu á skemmdarvörgum og þjófum. Tvívegis, a.m.k., hefur verið brotist inn í híbýli Skessunnar sem er við smábátahöfnina. Í öðru innbrotinu varð snuddutréð fyrir árás skemmdarvarga en í hinu innbrotinu var kista sem hefur að geyma peningagjafir til barna efnalítilla foreldra bortin upp og peningum stolið úr henni.
Smábátasjómenn sem hafa talað við Víkurfréttir vilja að komið verði upp eftirlitsmyndavélum við smábátahöfnina sem myndu auðvelda að hafa hendur í hári skemmdarvarga en yrðu fyrst og fremst virka sem fælingarmáttur.
Myndir: Skemmdir voru unnar á þessum báti í smábátahöfninni í Gróf um liðna helgi. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi
Lögreglubíll ekur um hafnarsvæðið nú eftir hádegið. Smábátaeigendur vilja eftirlitsmyndavélar við höfnina til að hafa hendur í hári skemmdarvarga. Í baksýn má sjá heimili skessunnar sem orðið hefur fyrir barðinu á innbrotsþjófum.