Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Barnshafandi kona flutt beint til Reykjavíkur
Föstudagur 18. febrúar 2005 kl. 18:35

Barnshafandi kona flutt beint til Reykjavíkur

Sjúkrabíll er nú á leiðinni til Reykjavíkur með þungaða konu sem féll á gólf í verslun Bónuss í Njarðvík nú á sjöunda tímanum í kvöld. Tvær sjúkrabifreiðar voru sendar á staðinn auk lögreglu. Sjúkraflutningamenn á fyrri bílnum bjuggu um konuna til flutnings en skömmu síðar kom önnur sjúkrabifreið með lækni á vettvang.

Sjúkrabíllinn með lækninum var á Reykjanesbrautinni við Grindavíkurveg þegar útkallið kom og var hann settur í forgang til aðstoðar. Læknirinn fór yfir í hinn sjúkrabílinn sem síðan fór beint til Reykjavíkur, án viðkomu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, taldi ástandið hafa verið alvarlegt og því verið farið beint á Landsspítalann - háskólasjúkrahús. Skurðstofa er ekki til taks  á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja allan sólarhringinn.

Fimmtán útköll hafa borist Brunavörnum Suðurnesja frá klukkan 9:30 til rúmlega 18:00.  Flest útköllin  tengdust sjúkraflutningum eða samtals 11.  Tilfellin voru misalvarleg, tvö tilfelli  voru í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eitt frá Holtaskóla, annað Sandgerðishöfn og tvö önnur minniháttar útköll.  Sjúklingar voru fluttir til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  Síðar voru fjórir sjúkraflutningar til Höfuðborgarsvæðisins fyrripart dags.

Myndirnar: Sjúkrabílarnir utan við Bónus nú á sjöndatímanum.  VF-símamyndir: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024