Barnaverndarstarfsmenn funda í Reykjanesbæ
Starfsdagur barnaverndarstarfsmanna á landinu var haldinn sl. föstudag í Bíósal Duushúsa í Reykjanesbæ en að skipulagningu hans stóð barnaverndarsvið Fjölskyldu- og félagssviðs Reykjanesbæjar.
Markmiðið með fundinum var að skapa sameiginlegan vettvang barnaverndarstarfsmanna til þess að ræða um ýmis málefni sem snúa að barnaverndarstarfinu. Mikið áreiti fylgir því að vinna barnaverndarstarf meðal annars vegna þess að starfið hefur gegnum tíðina fengið á sig neikvætt viðhorf samfélagsins. Barnaverndarstarfið er stöðugt undir smásjá og því er mikilvægt að starfsmennirnir finni fyrir stuðningi, hvatningu og viðurkenningu í starfi um leið og þeir leggja grunn að framþróun í takt við nýja tíma og nýjar kröfur.
Meðal þess efnis sem fjallað var um á starfsdeginum er starfsumhverfi barnaverndarstarfsmannsins, þróun og úrræði í barnavernd Reykjavíkur, reynslusaga foreldris, ráðgjafahlutverk Barnaverndarstofu og menntun barnaverndarstarfsmanna.
Með starfsdeginum er meðal annars lagður grunnur að aukinni samvinnu barnaverndarstarfsmanna, umræðu um barnaverndarstarfið í landinu og stöðu starfsmanna með því að þjappa hópnum saman og gera hann sýnilegri í þjóðfélaginu.
Mynd: Frá hópastarfi. Fundurinn var haldinn í Duushúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar.