Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Barnaverndardómur vekur spurningar um réttaröryggi
Sunnudagur 4. maí 2003 kl. 19:24

Barnaverndardómur vekur spurningar um réttaröryggi

Viðar Lúðvíksson, lögmaður hjónanna sem töpuðu máli um forræði sex barna sinna fyrir héraðsdómi Reykjaness í gær, segir að dómurinn eigi sér fá fordæmi og veki alvarlegar spurningar um réttaröryggi borgaranna. Héraðsdómur Reykjaness ákvað í gær að ógilda ekki ákvörðun barnaverndarnefndar í sveitarfélagi á Suðurnesjum um að svipta foreldra forræði yfir sex börnum þeirra. Barnaverndarráð staðfesti síðan úrskurðinn. Dómurinn gerði þó alvarlegar athugasemdir við meðferð málsins.  Í niðurstöðu dómsins segir að barnaverndarnefndin og Barnaverndarráð hafi brotið með alvarlegum hætti gegn meðalhófsreglu og rannsóknarreglu barnaverndarlaga með því að svipta foreldrana forræði yfir börnunum án þess að bjóða þeim stuðning við að koma fjölskyldunni á réttan kjöl.
 Málsmeðferðin hafi verið með svo alvarlegum annmörkum að jaðri við valdníðslu og það réttlæti út af fyrir sig að ákvarðanir barnaverndaryfirvalda verði ógiltar. Dómurinn kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að hagsmunir barnanna vegi þyngra en hagsmunir foreldranna og ákvað því að þau yrðu áfram hjá fósturforeldrum sínum.
Viðar segir að dómurinn eigi sér fá fordæmi og foreldrarnir íhugi að áfrýja málinu á hærra dómsstig. Ríkisútvarpið greinir frá. 


Myndin: Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í gær sveitarfélag á Suðurnesjum af kröfu um að ákvörðun barnaverndarnefndar þess yrði ógilt. Nefndin hafði svipt foreldra forræði yfir 6 börnum þeirra eftir að fjölskyldan hafði flúið til landsins frá Færeyjum og hafst við á tjaldstæði við þröngan kost. Myndin er sviðsetning úr safni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024