Barnaníðingsmál: Virðist vera ljótur hrekkur
Orðrómur um að dæmdur barnaníðingur sé að flytja til Sandgerðis og hringingar sem íbúar þar hafa verið að fá, virðist vera ljótur hrekkur. Heimildir Víkurfrétta herma að umræddur maður sé búsettur í Breiðholti. Vefurinn 245.is í Sandgerði fékk það einnig staðfest hjá samtökunum Blátt áfram, félagasamtökum sem vinna að forvörnum gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum. Þar á bæ var 245.is sagt að mæður í Breiðholti hafi leitað til lögreglunnar í Mjódd í gærkvöldi vegna sama manns. Lögreglan í Mjódd staðfesti þetta. Það er talið að umræddur maður búi í Breiðholtinu og foreldrar þar vilja hefja forvarnarfræðslu í sínu hverfi.
Lögreglunni á Suðurnesjum er ekki kunnugt um að maðurinn sé að flytja til Sandgerðis. Ætluðu lögregluyfirvöld að hafa samband við fangelsismálayfirvöld vegna málsins, enda eftirlit með kynferðisafbrotamönnum mikið.