Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Barnaleiktæki og fleira fyrir tugi milljóna bíða þess að verða eyðilögð
Miðvikudagur 13. september 2006 kl. 19:58

Barnaleiktæki og fleira fyrir tugi milljóna bíða þess að verða eyðilögð

Barnaleiktæki frá leikskóla Varnarliðsins, úti- og innileiktæki, búnaður úr skóla Varnarliðsins og húsgögn og annað sem tengist tómstundastarfi innan Varnarstöðvarinnar svo sem úr Bowling-sal og íþróttahúsi bíður þess nú að verða eyðilagður. Yfirmenn innan Varnarliðsins hafa viljað gefa búnaðinn til stofnana og góðgerðarsamtaka á Íslandi en fá ekki.

Í dag var farið með bílfarm af húsgögnum og öðrum búnaði í sorpeyðingarstöðina Kölku í Reykjanesbæ í fylgd tollvarða. Þar var búnaðurinn eyðilagður með sleggjum og áklæði skorin með hnífum, svo hlutirnir verði ekki nothæfir.

Heimildarmaður Víkurfrétta sagði marga bílfarma til viðbótar með húsgögnum, leiktækjum og öðrum búnaði fara sömu leið næstu daga. Þetta séu verðmæti upp á milljónir, jafnvel milljónatugi. Allt sé þetta í góðu ástandi. Útileiktækin myndu sóma sér vel á hvaða opna svæði sem er og gleðja yngstu borgarana.

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er það ekki vilji yfirmanna á Vellinum að einhver einn aðili hagnist á þessum búnaði, en samningur er við aðila sem selur varning af Keflavíkurflugvelli í Reykjavík. Sá aðili kaupir varning af Vellinum fyrir litlar upphæðir og endurselur með ríflegri álagningu. Yfirmennirnir af Vellinum vildu frekar gefa búnaðinn til góðgerðarsamtaka eða stofnana á Íslandi, sem gætu komið m.a leiktækjunum á rétta og viðeigandi staði. Það munu tollayfirvöld ekki hafa samþykkt og þess í stað verður öllu eytt í Kölku og sleggjum og hnífum beitt til þess að gerða verðmætin að engu.


 

Myndin: Af vef Varnarliðsins í Keflavík. Þessi leiktæki fara á haugana og verða eyðilögð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024