Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Barnalands-foreldrar vilja í kröfugöngu fyrir betri barnaspítala
Föstudagur 12. maí 2006 kl. 14:54

Barnalands-foreldrar vilja í kröfugöngu fyrir betri barnaspítala

Saga Bryndísar Eva Hjörleifsdóttur, litlu veiku stúlkunnar sem Víkurfréttir sögðu frá fyrir nokkru, verður í fréttaskýringaþættinum Kompási á NFS og Stöð 2 á sunnudaginn.

Foreldrar Bryndísar Evu þurfa sjálfir að standa vaktina yfir fársjúku barni sínu á næturnar. Fjölmargir hafa komið inn á vefsíðu foreldranna http://bebbaoghjolli.blogspot.com með góð orð þeim til stuðnings á erfiðum tímum. Þá er ljóst af lestri á færslum í gestabók síðunnar að fólk er langþreytt á aðgerðaleysi stjórnvalda í málefnum sjúkra barna og foreldra þeirra.

„...við höfum staðið vaktina í 18 ár, fórum einu sinni í blöðin það hringdu margir ráðamenn í okkur meira að segja RÁÐHERRAR,mörg voru loforðin, en við erum enn á vakt og hann er orðin 23 ára. Ég segi talið við alla sem þið náið í helst þyrfti kröfugöngu til að mótmæla hvernig peningum þjóðarinnar er varið...“ segir ein móðir á síðunni.

Þá segir á öðrum stað: „...eins og þið vitið þá hafið þið okkur Barnalandskonur í bakhöndinni og erum við nokkrar búnar að senda póst til Sivjar og á fjölmiðla. Það þarf bara endalaust að vera að minna á sig og á meðan að ráðamenn landsins eru ekki í þessari stöðu þá þarf alltaf að vera að sparka í rassinn á þeim...“


Grípum niður í dagbók foreldra Bryndisar Evu á netinu:

Lækurinn sem rann svo tær er orðinn drullufor
„Nú er kominn tími til að ausa örlítið úr skálum reiði minnar.
Mér finnst alveg kominn tími til að ríkisstjórnin hugsi sinn gang og endurskoði fjárlög til heilbrigðiskerfisins. Án gríns.

Nú er barnið mitt búið að vera mjög mikið veikt í 5 mánuði. Við Hjörleifur höfum að sjálfsögðu verið hjá henni, enda er hún dóttir okkar.
Það er viðbjóðslega erfitt að eiga veikt barn. Það er ógeðslega erfitt að horfa á barnið sitt of dröggerað til að vaka, of veikburða til að hreyfa sig og of lasið til að lifa. Viðbjóðslega sárt.
Það er ekki hægt að lýsa því almennilega hvernig sálin í manni brennur, og yfirgengileg þreyta breyðir úr sér um líkamann.
Við komumst að því strax á 3. degi að það mikilvægasta sem við gerum til að halda geðheilsunni er að sofa. Ef svefninn brestur, brestur mikið fleira. Við fundum það strax og höfum því reynt að hlusta á þau öskur sálarinnar.

Hins vegar er Bryndís það veik að við förum ekki að sofa frá henni og var því brugðið á það ráð að hún svæfi frammi á vakt hjá hjúkkunum svo þær gætu hjúkrað henni yfir nóttina og við sofið. Nú er hún með vírus og er því í einangrun og getur þar af leiðandi ekki verið frammi á nóttunni. Ekki er nægur mannskapur til að hún fái einkahjúkku yfir sér yfir nóttina þannig að við verðum bara að "redda þessu" sjálf með því að sleppa því að sofa. Ekki getum við sofið á nóttunni, eins og ég var að útskýra, og ekki getum við heldur sofið á daginn þar sem það er endalaus traffík inn og út allan daginn. Eigum við þá bara ekkert að sofa?

Ákkúrat núna er frekar lítið að gera miðað við allan tímann sem við höfum verið hérna þannig að það er ein stofa laus. Þar svaf ég í nótt á meðan Hjörleifur vakti með prinsessunni. Svo voru "vaktaskipti" hjá okkur í morgun og gat hann sofið rétt fram yfir hádegi, s.s. í örfáa tíma.

RS tímabilið var mjög strembið fyrir hverja einustu frumu í líkama okkar, og lítur út fyrir að þetta vírus-tímabil verði það líka.

Við höfum nokkrum sinnum "sett hnefann í borðið" og minnst á það að við VITUM að peningarnir eru til, þar sem Baugs feðginin gáfu pening eyrnamerkt veikindum eins og Bryndísar Evu. Bryndís Eva ÞARF á hágæslu að halda og hefur þurft sl. 154 daga.
Eftir að við röflum yfir þessu er yfirleitt leyst okkur af part úr degi í svona 2-3 daga, svo fer allt í sömu skorður eins og enginn hafi sagt eitt né neitt.
Hjúkkurnar eru allar af vilja gerðar, en yfir þeim er deildarstjóri, yfir henni er sviðsstjóri, yfir henni er einhver rosa merkilegur og yfir honum er ríkisstjórnin. Hvað eiga hjúkkurnar að gera?
Þetta pakk á hillunum fyrir ofan þarf að taka hausinn úr sandinum áður en það kafnar og gera eitthvað í málunum!!!

Það vantar starfsfólk. Það er eilífa afsökunin sem við fáum. Það er ósköp einfalt að leysa það. Borga fólki mannsæmandi laun svo það hafi áhuga á að vinna hérna. Ég veit ekki hvað þeir þurfa að hækka launin hjá sér mikið og oft áður en þeir hugsa um einhverja aðra.

Bryndís Eva er alls ekki sú eina sem þarf á hágæslu að halda. A.m.k. 2 önnur börn búa hér á spítalanum og hlýtur að vera svipað farið með þau.

Við erum alls ekki sátt með stöðu mála á þessum blessaða spítala í þessu frábæra landi með einu besta heilbrigðiskerfi heims. Þvert á móti.

Nóttinni í nótt var reddað þannig að sjúkraliðanemi mun vaka yfir Bryndísi. Við kunnum að vísu mjög vel við þá stelpu og treystum henni vel, en það er að sjálfsögðu ekki sama hver það er sem ég treysti fyrir barninu mínu.
Það verður gaman að vita hve mörgum nóttum verður "bjargað" þar til hún verður nógu frísk til að gista frammi, sem okkur er að vísu mein illa við sökum smithættu frá öðrum börnum.
En við verðum að halda geðheilsu. Hún helst ekki með svefnleysi, það er útilokað.

Hvenær ætlar þetta bévítans pakk að losa sig við kústskaftið í rassgötunum á sér, hætta að spá í byggingum og útliti landsins á heimsvísu og laga það sem skiptir máli?

Ég er með mjög mikla ofbeldisfóbíu, MJÖG mikla, en ég er svo reið (og þreytt) að mig langar til að rífa af mér hendina og kasta henni í einhvern. Einhvern ofboðslega merkilegan sem sefur sínum værasta núna, enda bara að vinna frá 9-4. Þ.e.a.s. þegar hann er ekki í "viðskiptaferð" um víða veröld.
Hann á örugglega engin börn og hefur aldrei átt veikan ættingja.

Heppinn.“

Þessa færslu skrifaði móðir Bryndísar Evu þann 9. þessa mánaðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024