Barn tekið úr barnavagni - fannst í næsta húsgarði
Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um að barn sem var sofandi úti í barnavagni hefði verið tekið úr vagninum. Atvikið átti sér stað í Reykjanesbæ á milli kl. 13-14 sl. föstudag.
Barnið, 14 mánaða gömul stúlka, hafði verið sofandi úti í barnavagni við íbúðarhús í Reykjanesbæ. Þegar huga átti að barninu reyndist það ekki vera í vagninum og eftir skamma leit heyrðist í barninu sem reyndist vera í húsagarði við næsta hús en milli húsanna er 80-90 cm há girðing. Ekkert virtist ama að barninu.
Allt bendir til þess að óviðkomandi hafi tekið barnið úr barnavagninum og farið með það yfir í garðinn við næsta hús.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum sem lítur það mjög alvarlegum augum og hvetur til sérstakrar aðgæslu með börnum við þessar aðstæður í ljósi málsins.