Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Barn fæddist í fólksbíl á Reykjanesbraut
Fimmtudagur 16. nóvember 2006 kl. 11:14

Barn fæddist í fólksbíl á Reykjanesbraut

Barn fæddist í fólksbíl á Reykjanesbraut í gær á leiðinni til Keflavíkur. Foreldrarnir voru að freista þess að komast á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þar sem fæðingin átti að eiga sér stað. Á Reykjanesbrautinni urðu þau hins vegar að stöðva för sína og taka á móti barninu, dreng sem reyndist vera 4125 grömm og 53 sm.

Foreldrarnir, Sveinn Speight og Silvía Ósk Speight, höfðu ætlað sér að fæða barnið á Heilbrigðisstöfnun Suðurnesja. Áður en þau lögðu af stað til Reykjanesbæjar í gær, en þau búa í Hafnarfirði, hafði Silvía Ósk misst vatnið.

„Það var ekki um annað að ræða en að stöðva bílinn og taka á móti barninu. Ég var í sambandi við sjúkraflutningamenn sem leiðbeindu mér í gegnum síma meðan á fæðingunni stóð. Sjúkrabílarnir komu síðan skömmu eftir að strákurinn fæddist og keyrðu okkur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja," segir Sveinn í samtali við Fréttablaðið í morgun.

Fyrir eiga Sveinn og Silvía fimm ára strák og átján mánaða stelpu og heilsast móður og hinum nýfædda syni vel.


Mynd: Sveinn Speight og Silvía Ósk Speight með drenginn sem fæddist á Reykjanesbrautinni í gær. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024