Baráttumál Ungmennaráðs Reykjanesbæjar í góðum farvegi
Nýstofnað Ungmennaráð í Reykjanesbæ lagði fram hugmyndir um úrbætur sem snúa að unglingum í nóvember 2012. Nú hyllir undir lausn á nokkrum málum, og því ekki úr vegi að fara aðeins yfir það.
Leiðarkerfi strætó hefur ekki gagnast ungmennum sem skyldi undanfarin ár og þ.a.l. er það alveg ljóst að þetta mál yrði strax mál málanna hjá Ungmennaráði. Því er afar ánægjulegt að geta tilkynnt um að miklar umbætur munu eiga sér stað á leiðarkerfi strætó strax á fyrstu mánuðum nýs árs 2013.
Almenningssamgöngur verða stórbættar á nýju ári, 30 mínútna leiðarkerfi, styttri tími á milli kjarna í Reykjanesbæ og Taxibus í Hafnir. Ekið verður lengur á daginn og um helgar. Áfram verður ókeypis í strætó í Reykjanesbæ. Sérstakt hrós fær bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem lagði mikla áherslu á að fulltrúar Ungmennaráðs myndu hitta Guðlaug H. Sigurjónsson framkvæmdarstjóra USK sem hefur haft veg og vanda að nýju leiðarkerfi og leitt þá vinnu fyrir hönd Reykjanesbæjar.
Ungmennaráð hefur barist fyrir fleiri málum s.s. lægri æfingargjöld. Það eru þ.a.l. ánægjuleg tíðindi sem eru að vænta í þeim málum. Framlög til íþróttasjóðs verða nær tvöfölduð en þar skiptir mestu um 50 % hækkun á þjálfarastyrk sem er ætlað að tryggja vel menntaða þjálfara í þágu barna- og unglingastarfs íþróttafélagana. Það er von Ungmennaráðs að þessar gjörðir munu skila sér í lægri æfingargjöldum.
Tómstundasjóður verður efldur til að geta gert samninga á ný við tómstundafélög. Hvatagreiðslur eru einnig væntanlega haustið 2013.
Ungmennaráðið er ánægt með nýja og bætta aðstöðu fyrir bardagaíþróttir að Iðavöllum, en þetta mál er eitt það fyrsta sem rætt var á fundum ráðsins.
Fulltrúar Ungmennaráðsins hafa að undanförnu unnið við að mála í Fjörheimum og fóru ferð til Reykjavíkur í gær að versla hluti til að gera staðinn hlýlegri en það er eitt af baráttumálum ráðsins.
Ungmennaráð óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.