Baráttukona fallin frá
Þorbjörg Elín Fríðhólm Friðriksdóttir er fallin frá. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann 15. desember sl. Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Þorbjörg var skjólstæðingur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en hún barðist við langvinna lungnaþembu og þurfti að vera í ytri öndunarvél löngum stundum.
Þorbjörg, eða Bobbý eins og hún var kölluð, vakti athygli fyrr á árinu þegar hún stóð fyrir söfnun fyrir ytri öndunarvél og ýmsum öðrum búnaði fyrir á þriðju milljón króna, sem hún færði HSS að gjöf á árinu.
Þar sem söfnun Þorbjargar gekk vonum framar ákvað hún að halda baráttu sinni áfram fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún setti því síðsumars í gang nýja söfnun þar sem markmiðið var að safna fyrir sjónvarpstækjum inn á allar stofur á D-deild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þeirri söfnun hefur miðað vel. Í minningu Þorbjargar verður þeirri söfnun haldið áfram en reikningsnúmer söfnunarinnar er 542-14-401515 og kennitalan er 061051-4579.