Bankasamruni: Einum sagt upp í Grindavík og störf flytjast til Reykjanesbæjar
Landsbankinn hefur nú gengið frá starfsmannamálum vegna samruna útibúa Spkef og Landsbankans. Á fjórum stöðum hafa bæði fyrirtæki rekið útibú, Ísafirði, Ólafsvík, Grindavík og í Reykjanesbæ og hefur þegar verið greint frá því að allir starfsmann Spkef og Landsbankans í útibúum í Reykjanesbæ halda störfum sínum.
Að öðru leyti hafa starfsmannamál verið leyst með eftirfarandi hætti;
Grindavík
Útibúin í Grindavík verða sameinuð í húsnæði Landsbankans. Einn starfsmaður SpKef var lausráðinn og hættir þegar samningur hans rennur út og einum öðrum hefur verið sagt upp. Aðrir koma til starfa hjá Landsbankanum. Valdimar Einarsson útibússtjóri Landsbankans mun leiða útibúið en fyrrverandi útibússtjóri Spkef hefur fengið boð um starf í höfuðstöðvum Landsbankans.
Ísafjörður
Útibúin á Ísafirði verða sameinuð í húsnæði Landsbankans. Engar uppsagnir fylgja þeim samruna. Sævar Þór Ríkharðsson útibússtjóri Landsbankans mun stýra útibúinu en Steinn I. Kjartansson fyrrverandi útibússtjóri Spkef, verður þjónustustjóri. Fimm starfsmenn Spkef munu því flytja inn í útibú Landsbankans. Einn starfsmaður Landsbanka og einn starfsmaður Spkef hafa ákveðið að leita á önnur mið.
Ólafsvík
Útibú verða sameinuð í húsnæði Landsbankans undir forystu Eysteins Jónssonar útibússtjóra. Engar uppsagnir verða af þessum sökum nú en einn starfsmaður SpKef hefur þegar ráðið sig annað. Aðrir koma til starfa í útibúi Landsbankans. Helga Guðjónsdóttir útibússtjóri Spkef í Ólafsvík mun vinna að samrunanum en láta af störfum síðar á þessu ári.
Aðrir staðir
Afgreiðslur sem áður heyrðu undir Spkef á Flateyri, Þingeyri, Súðavík, Tálknafirði, Bíldudal, Króksfjarðarnesi, Garði, Sandgerði, Njarðvík og Vogum munu starfa áfram eins og verið hefur. Sama gildir um útibúin á Patreksfirði og Hvammstanga.
Enn er unnið að málum þeirra sem starfa í höfuðstöðvum Spkef í Reykjanesbæ en eins og fyrr hefur komið fram kemur til greina að flytja störf til Reykjanesbæjar.