Bandarískir fjölmiðlar fengu aðgang að tökusvæði
Íslenskir fjölmiðlar fá ekki jafn greiðan aðgang að tökum stórmyndarinnar Flags of Our Fathers eins og þeir vestanhafs en hér á landi hafa fjölmiðlum ekki verið boðið að skoða tökustað kvikmyndarinnar. Í Bandaríkjunum var raunin önnur en þar voru fjölmiðlar mættir á tökustað og náði þannig fréttastofan WLTX flottum myndum af tökum kvikmyndarinnar við frægan minningarreit í Arlington í Virginíufylki.
Í frétt sem sjónvarpstöðin birti sést hvar Clint Eastwood leikstýrir kvikmyndinni ásamt því sem hann ræðir við fréttamenn um tökur á henni. Einnig sjást leikarar í fullum skrúða klæddir fötum frá þeim tíma sem innrásin var gerð eða árið 1945.
Víkurfréttir ræddu við fréttamanninn sem sá um þessa frétt og sagði hann að tökustaðurinn hefði verið opin öllum enda um opið svæði að ræða rétt eins og Sandvíkin. Hann furðaði sig á því að blaðamenn fengju ekki aðgang að svæðinu en það þykir sjálfsagður hlutur í Bandaríkjunum.
Ekki er vitað hvort íslenskum fjölmiðlum verði hleypt að svæðinu en hingað til hefur það ekki verið til umræðu. Fréttina um tökurnar á kvikmyndinni í Bandaríkjunum má nálgast með því að smella hér.
VF-mynd: Atli Már