Bandaríska sendiráðið gefur málverk af Andrews hershöfðingja
Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis E. Arreaga, afhenti síðastliðinn föstudag Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar (Kadeco) málverk af Frank Maxwell Andrews til varðveislu í Andrews leikhúsinu á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Frank Maxwell Andrews (f. 1884) var nýskipaður yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu þegar hann hugðist kanna lið sitt á Íslandi í maímánuði 1943. Andrews var þrautþjálfaður flugmaður og einn aðalhvatamanna að stofnun flughers Bandaríkjanna. Erfitt veður og lítið skyggni lenti til þess að flugvélin brotlenti á Fagradalsfjalli. Fórst Andrews þar ásamt þrettán öðrum áhafnarmeðlimum en einungis einn lifði slysið af. Sá lá fastur í byssuturninum í stéli vélarinnar þegar leitarflokk bar að 27 stundum síðar.
Árið 1959 var kvikmyndasalur Bandaríkjahers á varnarstöð þeirra við Keflavíkurflugvöll byggður og gefið nafnið Andrews theater. Var húsið nýtt til kvikmynda- og leiksýninga þann tíma sem varnarliðið hafði hér aðsetur. Þegar Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar tók við eignum varnarliðsins í lok árs 2006 þá var ákveðið að halda nafni byggingarinnar til þess að viðhalda tengslum við fyrri tíma. Andrews leikhúsið er í dag 500 sæta fjölnota menningarhús nýtt undir ýmis konar tónleika og viðburði. Þannig hafa nemendur Keilis verið útskrifaðir í Andrews og stór ráðstefna um flug og eldgos var haldin þar á vegum Keilis síðastliðið haust.
Efri myndin: Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis E. Arreaga (t.v.), afhendir framkvæmdastjóra Kadeco, Kjartani Þór Eiríkssyni málverk af Andrews hershöfðingja.
Mynd: Andrews leikhúsið á Ásbrú að utan