Bandarísk sprengjuflugvél flýgur heiðursflug
Í dag verður afhjúpaður minnisvarði við Grindavíkurveg en eitt helsta tákn kalda stríðsins, bandaríska sprengjuflugvélin Stratofortress mun koma til landsins í dag og fljúga heiðursflug yfir svæðið þar sem minnisvarðinn er staðsettur.
Minnisvarðinn er afhjúpaður í dag en þann 3. maí 1943 fórst bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-24D Liberator sem bar nafnið „Hot Stuff“ á Fagradalsfjalli á Reykjanesi.
Í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá þessum örlagaríka degi verður afhjúpaður minnisvarði um flugslysið við Grindavíkurveg í dag kl. 13. Minnismerkið er tilkomumikið og skartar meðal annars gríðarlega stórri eftirlíkingu af B-24 Liberator sprengjuflugvélinni úr ryðfríu stáli. Þá verður í kjölfarið minningarathöfn í Andrews Theater á Ásbrú, kl. 14:30.