Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bandaríks þingnefnd spennt fyrir vetnisvæðingu Keflavíkurflugvallar
Þriðjudagur 24. ágúst 2004 kl. 17:52

Bandaríks þingnefnd spennt fyrir vetnisvæðingu Keflavíkurflugvallar

Eins og kunnugt er af fréttum kom öflugur hópur bandarískra öldungardeildarþingmanna til Íslands í morgun.  Hópurinn hélt til í Bláa lóninu, naut aðstæðna og hélt fund með fulltrúum íslenkra stjórnvalda.  Einn þingmanna á fundinum var Hjálmar Árnason. Víkurfréttir heyrðu í Hjálmari eftir fundinn með þingnefndinni.
„Þetta var stórkostlegur fundur.  Hér var á ferðinni ein af áhrifamestu nefndum bandaríkjaþings undir forystu hins kunna forsetakandidats, John McCain.  Þá situr Hillary Clinton í nefndinni þannig að þetta er öflugur hópur.“

- Um hvað var rætt?
„Þau óskuðu eftir því að fá aðeins einn fyrirlestur, um vetni.  Þá kynningu annaðist Jón Björn Skúlason, fyrrvernadi starfsmaður MOA og núvernadi framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku. Athygli vakti að þau vissu mjög margt um vetnisáform Íslendinga,  höfðu kynnt sér þau í sjónvarpi og ýmsum blöðum.  Þess vegna var áhugi þeirra vakinn á Íslandi. Þau sögðu fullum fetum að við hefðum forystu á því sviði og vildu kynna sér vinnu okkar.“

- Var eitthvað rætt um málefni Varnarliðsins?
„Halldór Ásgrímsson tók það mál upp og sýndu gestirnir mikinn áhuga á því máli.  Halldór lagði ríka áherslu á að nauðsynlegt væri fyrir báðar þjóðir að viðhalda varnarsamstarfinu en jafnframt að óvissunni yrði að eyða sem fyrst.  Viðbrögð gestanna voru mjög jákvæð og tóku öll undir þessi sjónarmið.  Þetta hygg ég að muni hafa mikil áhrif á framvindu málsins því þessi hópur getur látið til sín taka og er úr báðum flokkum.“

- Þú hefur rætt um vetnisvæðingu Keflavíkurflugvallar. Bar þá hugmynd á góma?
„Fyrir um fjórum árum varpaði ég fram þeirri hugmynd á aðalfundi bandarísku vetnissamtakanna að varnarstöðin í Keflavík yrði notuð samhliða til að gera tilraunir með hina nýju vetnistækni. Síðna hefur málið verið til skoðunar. Við tókum þessa hugmynd upp á fundinum og voru viðbrögð hópsins einkar jákvæð.  Fulltrúar Varnarmálaráðuneytisins hafa þegar komið til landsins vegna þessa.  Af viðbrögðum að dæma má ætla að hópurinn muni ýta á frekari skoðun þessa máls. Verði þetta að raunveruleika mun varnarstöðin fá nýtt og aukið hlutverk. Maður getur varla ímyndað sér hvað það hefði mikil áhrif á alla starfssemia og alls kyns störf skapast í kringum verkefnið.  Nú er bara að sjá hvað gerist í framhaldinu,“ segir Hjálmar Árnason, alþingismaður í samtali við Víkurfréttir.

Myndin: Hjálmar Árnason alþingismaður og Hillary Clinton öldungardeildarþingmaður á fundi í Bláa lóninu í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024