Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bandaríkjaher veitir íslenskum stjórnvöldum viðbótar gálgafrest
Mánudagur 25. september 2006 kl. 16:26

Bandaríkjaher veitir íslenskum stjórnvöldum viðbótar gálgafrest

- Leigan á tækjabúnaði á flugvellinum framlengd um fjögur ár vegna þrýstings frá íslenskum stjórnvöldum.

Svo gæti farið að leigusamningur milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda varðandi tækjabúnað á Keflavíkurflugvelli verði framlengjanlegur í fjögur ár til viðbótar því ári sem samið verður um og Víkurfréttir sögðu frá í síðasta tölublaði sínu. Talið er líklegt að samningur milli þjóðanna um framtíð varnarsamstarfs og afdrif eigna og búnaðar á varnarsvæðinu verði kynntur þjóðinni á morgun.

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hafa íslensk stjórnvöld lagt mikla áherslu á að leigutíminn verði lengdur. Þurfa enda miklar fjárfestingar að koma til svo hægt verði að reka alþjóðaflugvöllinn eftir að búnaðurinn, þ.á.m. slökkviliðsbílar, snjóruðningstæki og ýmis konar fjarskiptabúnaður verður fjarlægður héðan af landi brott.

Í frétt Víkurfrétta um kostnað vegna þessa kom fram að hver flugvallarslökkvibifreið kostar tugi milljóna og er því óhætt að áætla að endurnýjun á búnaðinum muni kosta hundruð milljóna.

Sömu heimildarmenn segja að Bandaríkjamenn hafi tekið vel í beiðni Íslendinga um fjögur ár til viðbótar, en ennþá eigi eftir að afgreiða málið hjá stofnunum ytra.

Þá er talið víst að Bandaríkjamenn muni segja upp samningum um rekstur Ratstjárstofnunar, en sá samningur felur í sér eins árs uppsagnarfrest. Bandaríkjamenn geta stýrt umfangi starfs Ratsjárstofnunnar og hafa heimildarmenn Víkurfrétta sagt að Íslendingar hafi af því áhyggjur að hún verði rekin með lágmarksfjárframlagi af hálfu bandarískra stjórnvalda á þeim tíma.

 

Texti: Þorgils Jónsson

Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson og Páll Ketilsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024