Banaslys hjá fyrirtæki á Reykjanesi
- Talið að gufur hafi borist úr verksmiðju í svefnskála
Einn maður lést og annar var fluttur á sjúkrahús eftir alvarlegt slys hjá fiskverkuninni Háteigi á Reykjanesi í nótt. Greint er frá þessu á mbl.is. Mennirnir tveir dvöldu í svefnskála sem er tengdur við verksmiðjuna. Talið er að gufur hafi borist úr verksmiðjunni og í skálann.
Haft er eftir Kristni Tómassyni, yfirlækni Vinnueftirlits, að það sé mat staðkunnugra að óvenjuleg lykt sé inni í verksmiðjunni miðað við það sem venjulega er og þess vegna búið að banna vinnu í verksmiðjunni og á svæði tengdu henni. Lögreglan á Suðurnesjum er nú á vettvangi ásamt fulltrúum frá Vinnueftirliti.