Bam Margera málar myndir við Leifsstöð
Jackass stjarnan Bam Margera situr nú á stéttinni utan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og málar myndir í blíðunni á meðan hann bíður eftir flugi frá landinu.
Bam Margera hefur ítrekað misst af flugi frá landinu. Hann er að sögn búinn að bóka flugmiða fimm sinnum en hefur alltaf misst af ferðunum. Þessir miðar hafa kostað hann um 6000 Bandaríkjadali.
Jackass stjarnan Bam Margera komst í fréttirnar í vikunni þegar Víkurfréttir greindu frá því fyrstar fréttamiðla að bílaleigubíll sem Bam Margera var með fannst við hótel í Reykjanesbæ og hafði bifreiðin orðið fyrir ýmiskonar tjóni sem metið var á 1,2 milljónir króna. Stjarnan staðgreiddi tjónið en fjölmennt lögreglulið bankaði upp á hótelherbergi kappans.
Nú er Bam Margera sem sagt á leiðinni úr landi og notar síðustu mínúturnar til að mála myndir við Leifsstöð. Það var Bjarki Már Viðarsson sem smellti myndinni af kappanum.