Baldvin GK besti stóri togarinn árið 2022
„Hreinræktað fiskveiðitæki,“ segir þekkt tímarit í sjávarútvegi.
Útgerðarfélagið Nesfiskur, sem m.a. gerir út togarann Baldvin Njálsson GK, fékk rós í hnappagatið nýlega þegar skipið var valið „Besti stóri togarinn árið 2022“ af Baird Maritime en það er eitt af leiðandi tímaritum um skipasmíðar í heiminum. Fiskifréttir greindu frá.
Blaðið segir hið nýja glæsilega skip vera „hreinræktað fiskveiðitæki“. Spennandi sé að sjá slík skip smíðuð eftir langa eyðimerkurgöngu í þeim efnum. Í umfjölluninni segir að skipið sé hannað af hinu þekkta, íslenska skipahönnunarfyrirtæki Skipasýn fyrir Nesfisk í Garði. Hönnun og smíði skipsins tekur mið af öryggri og skilvirkri notkun þess í ólgusjó Norður-Atlantshafsins, verksmiðjutogari með öllum þeim búnaði sem til þurfi.
Í umfjölluninni í blaðinu er rætt við Sævar Birgisson, framkvæmdastjóra Skipasýnar. Hann segir skipið eitt hið eyðslugrennsta miðað við stærð og það megi þakka skrokklaginu og skrúfu sem er fimm metrar í ummál. Skipið var smíðað í Vigo á Spáni. Stöðin er um þessar mundir með tvö skip í smíðum fyrir Íslendinga, annars vegar 58 metra langan togara fyrir Þorbjörn hf. í Grindavík, Huldu Björnsdóttur GK, og hins vegar hafrannsóknarskipið Þórunni Þórðardóttur.