Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bakvarðasveitin - söfnunarþáttur á RÚV í kvöld!
Föstudagur 31. maí 2013 kl. 10:32

Bakvarðasveitin - söfnunarþáttur á RÚV í kvöld!

Í dag hleypir Slysavarnafélagið Landsbjörg formlega af stað nýju verkefni  sem kallast Bakvarðasveitin. Almenningi verður boðið að gerast bakverðir sem leggja fram ákveðna upphæð til starfsins mánaðarlega. Þannig styður Bakvarðasveitin þétt við bak þess öfluga slysavarna- og björgunarstarfs sem sjálfboðaliðar félagsins sinna. Einnig verður tekið á móti frjálsum framlögum.

Átakið hefst með söfunarþætti á RÚV í kvöld. Dagskráin hefst klukkan 19:40 og stendur fram til 23:30. Fólki gefst kostur að hringja inn og sýna stuðning sinn í verki en símaver verður rekið hjá Vodafone og munu þekkt andlit úr þjóðfélaginu leggja málefninu lið og svara í símann.

Það er óhætt að lofa áhugaverðri kvöldstund með drama, gríni, alvöru og óvæntum uppákomum. Varpað verður ljósi á þá víðtæku starfsemi sem fram fer undir hatti félagsins, talað við fólk sem hefur notið aðstoðar björgunarsveita og sagt frá minnisstæðum björgunarafrekum og fleiru áhugaverðu.

Fóstbræðurnir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson bjóða okkur upp á hipster björgunarsveitamanninn og Hraðfréttastrákarnir reyna sig í ýmsum verkefnum sem björgunarsveitir takast á við í starfi sínu. Áhöfnin á Húna, sem skipuð er Mugison, Jónasi Sig., Láru Rúnarsdóttur, Guðna Finnssyni og Arnari Gíslasyni,  sér svo um tónlistina.

Kynnar í myndveri verða Felix Bergsson og Margrét Blöndal og í símaveri Vodafone standa vaktina Þóra Arnórsdóttir og Andri Freyr Viðarsson. Gísli Einarsson og Edda Sif Pálsdóttir fylgjast svo með óvæntum uppákomum í Kollafirði og Esju. Egill Eðvarðsson sér um dagskrárgerð.

Símanúmer söfnunarinnar er 570 5959. Símsvörun hefst klukkan 17:00 í dag.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024