Bakkaði ofan í skurð og valt
Bílvelta varð um tvöleytið í nótt við Keilisbraut í Reykjanesvæ, í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Ökumaður ætlaði að snúa bifreið sinni við en bakkaði ofan í skurð með þeim afleiðingum að hún valt. Auk hans var einn farþegi í bílnum. Engin slys urðu við óhappið. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun.
Nokkur umferðaróhöpp til viðbótar urðu um helgina en engin meiðsl á fólki.
Sjö ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 133 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km.
Þá voru sex ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur.