Bakarí í Reykjanesbæ styrkja krabbameinsrannsóknir
-Valgeirsbakarí og Sigurjónsbakarí selja brjóstabollur til styrktar Göngum saman
Bakarí víðs vegar um landið munu yfir mæðradagshelgina, 11.- 14. maí, selja brjóstabollur um land allt til stuðnings styrktarfélaginu Göngum saman. Félagið styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini og úthlutar styrkjum í október á hverju ári.
Bæði Valgeirsbakarí í Njarðvík og Sigurjónsbakarí í Keflavík munu selja bollurnar.
Jóhannes Felixson, formaður Landssambands bakarameistara, segir brjóstabolluna í ár vera bollaköku með gómsætu smjörkremi sem minni á brjóst. „Við höfum undanfarin sex ár efnt til sölu á brjóstabollum á mæðradagshelginni til stuðnings Göngum saman í þeim tilgangi að leggja lið mikilvægum rannsóknum á brjóstakrabbameini. Á þessum sex árum hefur tekist að safna um átta milljónum króna og nú stefnum við að því að bæta um betur. Við höfum hvatt sem flesta bakara til að taka þátt enda munar um minna fyrir rannsóknirnar að fá þennan stuðning frá LABAK. Það er ekki amalegt fyrir okkur bakarana að geta boðið landsmönnum upp á bragðgóðar bollur um leið og við styrkjum gott málefni. Við hvetjum fyrirtæki og stofnanir til að bjóða starfsmönnum upp á bollur með kaffinu á fimmtudag og föstudag og síðan er tilvalið að taka þátt í mæðradagsgöngum sem verða um allt land og gæða sér á brjóstabollum að göngu lokinni.”