Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 21. nóvember 2001 kl. 11:53

„Bagaleg staða fyrir menningarlífið“, segir Karen Sturluson

Tónlistarkennarar eru enn í verkfalli en það hefur sett stórt strik í reikninginn hvað varðar tónlistarkennslu í skólum, tónleikahald og menningarlíf almennt. Kennarar fjölmenntu á bæjarstjórnarfund í gærkvöldi og fóru fram á við bæjaryfirvöld að þau þrýsti á samninganefnd launanefndar sveitarfélaga að ná samningum.
Kröfur tónlistarkennara eru að fá sömu laun og grunnskólakennarar en að sögn Karenar Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóra við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og handahafa menningarverðlauna Reykjanesbæjar, hefur samninganefndin ekki sýnt neinn lit ennþá þrátt fyrir að kennarar hafi lækkað launakröfur sínar. Verkfallið hefur nú staðið yfir í mánuð.
„Bærinn hefur staðið vel að tónlistarlífi í bænum og ég trúi því að það sé fullur vilji fyrir að halda áfram að byggja það upp. Ég er sannfærð um að ef sveitarfélögin færu sjálf með samningaumboðið þá væru þau búin að semja, ég er samt ekki að meina að taka eigi umboðið til baka að svo stöddu“, segir Karen.
Rekstrarfyrirkomulag tónlistarskóla í Reykjavík er annað en í öðrum sveitarfélögum. Í Reykjavík eru skólarnir einkareknir en borgin greiðir kennurum laun. Annars staðar eiga sveitarfélögin og reka skólana. „Við höfum heyrt orðróm um að borgin standi á móti því að launin verði hækkuð og þess vegna standi samningar fastir. Þeir vilja endurskoða rekstrarkerfið og síðan endurskoða laun. Að mínu mati er ekki tími til þess að fara út í endurskoðun á rekstrarkerfi skólanna eins og er, þar sem það tekur mörg ár. Fyrst eigum við að semja um laun og síðan endurskoða kerfið.“
Ellert Eiríksson bæjarstjóri Reykjanesbæjar (D) sagði á bæjarstjórnarfundinum að það væri vilji bæjarstjórnar að samningar næðust sem fyrst við tónlistarkennara. Hann sagðist jafnfram eiga von á að það drægi til tíðinda innan mjög stutts tíma. Allir bæjarfulltrúar samþykktu ályktun tónlistarkennara en hún fór fyrir samninganefndina í morgun.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024