Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 16. ágúst 2000 kl. 14:31

Bætt og brúkað í Keflavík

Rut Sumarliðadóttir hefur opnað verslun að Hafnargötu 16 í Keflavík. Þar fást notaðir hlutir af öllum stærðum og gerðum, m.a. húsgögn, skrautmunir, leikföng, bækur, postulín o.fl. Í einu horni verslunarinnar er myndlistarhorn og þessa dagana hanga þar uppi verk eftir Tobbu. Verslunin er opin á virkum dögum frá kl. 13 til 18 og á laugardögum frá kl. 13 til 16. „Mig hefur lengi langað til að opna búð með notaða muni. Ég hef búið erlendis og féll þá fyrir svona búðum. Mér fannst vanta slíka búð í Reykjanesbæ og ákvað því að láta gamlan draum rætast og sjá hvernig gengi. Ég hef alltaf verið safnari og hef einstaklega gaman af gömlum hlutum. Mér finnast þeir áhugaverðir því þeir eiga sér sögu. Þegar ég tek við hlutum þá reyni ég að fá sögu þeirra, ef það er nokkur leið“, segir Rut og brosir. Rut tekur hluti í umboðssölu og auglýsir hér með eftir alls kyns munum. „Fólk getur haft samband við mig í síma 421-4191 og ég geri þá tilboð í hluti og búslóðir. Einnig geta listamenn og handverksfólk haft samband ef þeir vilja sýna og/eða selja verk sín hjá mér“, segir Rut að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024