Bæta 4G samband í Vogum og á Vatnsleysuströnd
Í byrjun febrúar verði settur upp nýr 4G sendir Símans í aðstöðu Mílu á Hafnhól við Reykjanesbraut.
„Þetta eru góðar fréttir, ekki síst fyrir íbúa Vatnsleysustrandar, sem fram til þessa hafa þurft að reiða sig á 3G tengingar, sem eru mun hægvirkari en 4G. Í september sl. var nýr 4G sendir einnig tekinn í notkun á Vogastapa, þannig að nú glittir í að allir íbúar Sveitarfélagsins Voga njóti góðs af 4G sambandi,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, í vikulegu fréttabréfi sínu.
Uppsetning þessara senda er ekki síst jákvæð fyrir þá sem ferðast um Reykjanesbrautina, því þeir munu framvegis ná að tengjast 4G þegar ferðast er eftir brautinni. Ekki síst ánægjulegt fyrir þá fjölmörgu sem ferðast með strætó, en í vögnunum er aðgangur að netsambandi, segir Ásgeir jafnframt.