Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bærinn með um 4.000 fermetra af færanlegum einingum fyrir leik- og grunnskóla
Föstudagur 29. september 2023 kl. 06:05

Bærinn með um 4.000 fermetra af færanlegum einingum fyrir leik- og grunnskóla

Nýjasta viðbótin er 1.200 fermetra skólahús á gamla malarvellinum við Hringbraut

Reykjanesbær á eða leigir um 4.000 fermetra af færanlegum einingum sem í dag eru notaðar fyrir leik- og grunnskóla í bæjarfélaginu. Nýjasta útspil bæjarins er 1.200 fermetra skólabygging sem reis á nokkrum mánuðum á gamla malarvellinum við Hringbraut í Keflavík og er ætlað að leysa bráðan húsnæðisvanda Myllubakkaskóla og Holtaskóla.

Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Reykjanesbæjar, skissaði hugmynd að skólabyggingunni á blað þann 13. apríl og starfsleyfi fyrir bygginguna var gefið út þann 20. september fyrir fullbúið húsnæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í samtali við Víkurfréttir segir Guðlaugur að Reykjanesbær hóf samvinnu við Trimó í Slóveníu eftir útboð árið 2016. Hugmynd bæjarins hafi þá verið að útvega einfalt, fljótlegt og gott húsnæði.

Fyrsta verkefnið var Stapahöll Við Stapaskóla en þar er um að ræða 820 fermetra skólahúsnæði með stækkunum en upphaflega var húsið 660 fermetrar.

Næsta verkefni var stækkun leikskólans Skógarás á Ásbrú en þar er um varanlega byggingu að ræða.

Leikskólinn Skógarás er í varanlegu húsnæði úr einingum.

Færanlegar „svítur“

„Árið 2018 hönnuðum við einingar sem hafa fengið hið flotta heiti Svítur en það eru færanlegar einingar sem eru um 70 fermetrar af stærð og er hægt að púsla þeim saman að vild. Þegar við hönnuðum Svíturnar byrjuðum við að setja einingarnar saman á burðarvirki úr stáli sem gerir flutning á þessum einingum enn einfaldari,“ segir Guðlaugur.

Nú eru Svítur við Leikskólann Holt, Leikskólann Hjallatún, Njarðvíkurskóla og svo hafa verið settar nokkrar á lóð Myllubakkaskóla.

Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar, sýnir Kjartani Má, bæjarstjóra, fyrstu skissuna af skólahúsinu á gamla malarvellinum.

Nauðsynleg lausn

Nýjasta framkvæmdin eru einingar á gamla malarvellinum í Keflavík, samtals um 1.200 fermetrar af skólahúsnæði sem var tekið í notkun í byrjun þessarar viku.

„Þessi lausn hefur verið nauðsynleg á þessum fordæmalausu tímum sem Reykjanesbær er að fara í gegnum, þegar tíminn er aðal faktorinn.“

Guðlaugi er ekki vel við að þetta byggingarform sé kallað „gámaeiningar“. Þó þetta séu í grunninn gámaeiningar þá hafa þær verið hannaðar fyrir íslenskar aðstæður og eru vel einangraðar og allt annars eðlis en vörugámar sem flest þekkja.

„Þessar Svítur hafa komið mjög vel út og er ánægja meðal starfsfólks með þessa hönnun þótt vissulega sé þetta hugsað sem tímabundið úrræði en við höfum lagt metnað í það að gera þetta vel þótt þetta sé tímabundin lausn.“

Séð inn í eina að skólastofuna á malarvellinum.

Á ekki að geta myglað

Efnisval og hönnun gerir það að verkum að þessar einingar eiga ekki að lenda í „mygluvandræðum“ en Guðlaugur bendir á að það er sama hvaða húsnæði þú ert með, ef það lekur og ekki er gætt þess að lofta vel um húsnæðið þá mun það mygla.

Aðspurður hvort fleiri Svítur séu á leiðinni segist Guðlaugur vona að þær sem settar voru upp á gamla malarvellinum séu þær síðustu sem þarf að kaupa í einhvern tíma. Þó mikið sé af framkvæmdum næstu tvö til þrjú árin þá munu einingar losna fljótlega sem hægt verður að nýta á öðrum stöðum.

Í nýja skólahúsinu á malarvellinum.