Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 15. ágúst 2001 kl. 10:08

Bærinn lifnar við á Ljósanótt

Árleg menningarhátíð Reykjanesbæjar „Ljósanótt“ verður haldin 1. sep. nk. Undirbúningsnefnd Ljósanætur hefur staðið í ströngu undanfarna daga og það var ekki hlaupið að því að ná í skottið á Steinþóri Jónssyni, formanni undirbúningsnefndar.

Velvilji bæjarbúa
„Undirbúningur hefur gengið vel og dagskráin er að verða fastmótuð. Við finnum fyrir miklum velvilja allara bæjarbúa enda heppnaðist Ljósanótt afar vel í fyrra“, segir Steinþór.
Hátíðin verður ennþá viðameiri í ár að sögn Steinþórs, listviðburðum hefur fjölgað og þátttakendur verða enn fleiri.

Óperan verður einn af hápunktunum
„Einn af stærri viðburðum Ljósanætur verður frumflutningur á óperunni Z-ástarsaga eftir Keflvíkinginn Sigurð Sævarsson. Ég átti þess kost að vera viðstaddur frumflutning á sálumessunni Requiem eftir Sigurð Sævarsson og uppfærslu á Gianni Schicchi eftir Puccini sl. helgi, og vil ég þakka aðstandendum fyrir frábæra sýningu, framtakssemi og dugnað og skora um leið á alla sem misstu af þessari glæsilegu uppákomu, að mæta á Ljósanótt á Z-ástarsaga.“

Karnivalstemning - eldgleypar og trúðar
Hátíðarhöldin á Ljósanótt munu að mestu fara fram á Hafnargötunni, við Duus-húsin og við smábátahöfnina í Grófinni. Miðbær Keflavíkur mun því iða af lífi. Götuleikarar frá Frumleikhúsinu munu örugglega setja sterkan svip á bæinn þennan dag en leikarararnir hafa verið á námskeiði að undanförnu og lært sitthvað um götuleikhús, sem er listgrein út af fyrir sig.
„Frumleikhúsið vildi taka þátt og þau hafa lagt mikið á sig til að hafa þetta flott. Eldgleypar, trúðar, furðufyrirbæri á stultum er meðal þess sem fólk á von á að mæta á förnum vegi þennan dag. Leikararnir ætla líka að halda uppi sannkallaðari karnivalstemningu í portinu við Svarta pakkhúsið um kvöldið, en þá er fer fram uppboð á listaverkum eftir listafólk í Félagi myndlistarmanna í Reykajnesbæ.“

Eitthvað fyrir alla
Sundlaugin við Sunnubraut verður opina alla daginn og þar verða ýmsar uppákomur fram að hádegi, líkamsræktarstöðin Lífsstíll verður með opið hús og sér um að skipuleggja Suðurnesjamaraþon. Skátarnir verða með skátatorg á torfunni við Duus húsin og verslanir verða með lengri opnunartíma og ýmis tilboð í tilefni dagsins. Þá verður landsleikur seinnipartinn á milli Íslands og Írlands í körfubolta í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Skemmtistaðirnir láta ekki sitt eftir liggja í að sinna næturhröfnunum, og svo mætti lengi telja. Nú er bara að vona að veðurguðirnir verði Reyknesbæingum hliðhollir. En hvernig veðri lofar Steinþór í ár?
„Það verður hægvirði að norð-austan og skýað frameftir degi en léttir til seinnipartinn með sólarglennum af og til. Gæti hvesst þegar líður á daginn en helst þó þurr.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024