Bærinn ætlaði að fjarlægja gáminn árið 2015
-Er þarna enn þrátt fyrir áralanga baráttu íbúa
Gámur sem notaður var sem aðstaða starfsmanna á byggingasvæði í Dalshverfi í Innri Njarðvík hefur angrað íbúa í Hamradal í mörg ár. Gámnum var komið fyrir á lóðinni fyrir um 7 árum síðan. Lítið hefur verið framkvæmt á lóðinni og nú telja íbúar gáminn vera slysagildru.
Íbúi í Hamradal, sem Víkurfréttir ræddu við í dag, segir að áskoranir hafi ítrekað verið sendar, m.a. til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ, þar sem þess er krafist að gámurinn verði fjarlægður af lóðinni og úr götunni. Börn hafi gert byggingalóðina að leiksvæði. Þá hafi börnin einnig grafið göng undir gáminn.
Ástand gámsins er orðið slæmt og uppistöður hans ryðgaðar.
Íbúar skrifuðu undir áskorun til bæjaryfirvalda og fengu svör um að gámurinn yrði fjarlægður fyrir lok október 2015. Þrátt fyrir það er gámurinn ennþá á sama stað.
Gámurinn er merktur sem leigugámur frá fyrirtækinu Hafnarbakka. Ólafur E. Gunnarsson hjá Hafnarbakka segir allt benda til þess að gámurinn hafi verið seldur frá fyrirtækinu fyrir margt löngu. Hann finnist ekki í gögnum fyrirtækisins í dag og hafi ekki komið fram í birgðum eða talningu allt aftur til ársins 2003.