Bæjarstjórnir veita byggingarleyfi fyrir álver í Helguvík
Bæjarstjórnir Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs hafa samþykkt byggingarleyfi vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Byggingarnefndir í báðum sveitarfélögum höfðu fjallað um málið og mælt með því að byggingarleyfi vegna beiðni Norðuráls um byggingu álvers við Stakksbraut 1 verði veitt.
Leyfið var samþykkt í Garði með 6 atkvæðum en einn bæjarfulltrúi meirihlutans greiddi atkvæði gegn byggingarleyfinu. Í Reykjanesbæ greiddu tíu bæjarfulltrúar byggingarleyfinu atkvæði en einn bæjarfulltrúi sat hjá í málinu.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir að allar upplýsingar og forsendur sem sveitarstjórnirnar hafi kallað eftir frá Skipulagsstofnun liggja nú fyrir en það er sá aðili í stjórnsýslunni sem þau eiga samskipti við. „Stofnunin hefur skilað jákvæðu áliti á umhverfismati og þess vegna getum við tekið þessa ákvörðun,“ segir Árni.
Mynd: Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ nú undir kvöld.