Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga lýsir þungum áhyggjum af stöðunni
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árin 2021–2024 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn þarsíðasta miðvikudag.
„Það má með sanni segja að áætlunin sé að þessu sinni lögð fram við óvenjulegar aðstæður. Mikil óvissa ríkir um rekstur sveitarfélagsins á næsta ári, einkum á tekjuhliðinni. Þá óvissu má að lang mestu leyti tengja við kórónuveirufaraldurinn, sem enn geisar. Atvinnuleysi hér í landshlutanum og þar með í okkar sveitarfélagi er mikið, og fer vaxandi. Af þeim sökum ríkir óvissa um útsvarstekjur og þróun þeirra. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa lækkað talsvert í ár, áætlanir um framlög næsta árs eru einnig talsvert lægri en verið hefur undanfarin ár. Ríkisvaldið og Samband íslenskra sveitarfélaga (fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu) hafa gert með sér sérstakt samkomulag um fjárhagslega viðspyrnu, en enn sem komið er bólar ekkert á útfærslu þeirra aðgerða,“ segir í pistli sem Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum skrifar.
Bæjarstjórn lagði fram sérstaka bókun við framlagningu áætlunarinnar af þessu tilefni, sem hljóðar svo:
„Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga lýsir þungum áhyggjum af stöðunni, og hvetur ríkisvaldið til að beina aðstoð sinni að þeim sveitarfélögum sem eiga í sem mestum vanda og þar sem staðan er hvað erfiðust.“
Síðari umræða um áætlunina verður að öllu óbreyttu þann 16. desember næstkomandi.