Bæjarstjórn RNB: Leiðrétta þarf frjárframlög til HSS
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir þær áhyggjur sem fram hafa komið og varða rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Komi til þess að fjárframlög til stofnunarinnar verði lækkuð frá því sem nú er mun það skerða verulega þjónustu við íbúa á Suðurnesjum ásamt því að auka á atvinnuleysi á svæðinu enn frekar.
Þetta segir í bókn sem öll bæjarstjórnin stóð að á fundi hennar á þriðjudaginn.
Í bókuninni segir ennfremur:
„Allir þingmenn Suðurkjördæmis hafa lýst yfir að leiðrétta þarf fjárframlög til stofnunarinnar að teknu tilliti til þeirrar fjölgunar sem átt hefur sér stað á Suðurnesjum á undanförnum fjórum árum.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hvetur þingmenn og heilbrigðisráðherra að sjá til þess að þessi leiðrétting eigi sér stað hið fyrsta og til að koma í veg fyrir harkalegar niðurskurðaraðgerðir sem munu bitna á þeim er síst skyldi.
Í samræmi við stefnu Heilbrigðisráðuneytisins voru nýjar skurðstofur teknar í notkun á þessu ári. Með því skyldi treystur grundvöllur mikilvægrar þjónustu s.s við verðandi mæður. Lokanir skurðstofanna fyrir skjólstæðingum HSS væri algjörlega í andstöðu við þessa stefnu.
Suðurnesjamenn treysta á að heilbrigðisráðherra styðji þetta sjónarmið Suðurnesjamanna og leiti leiða til að styrkja skurðstofuþjónustu á svæðinu í stað þess að veikja hana.„
Undir bókunina skrifa Björk Guðjónsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Árni Sigfússon, Garðar K. Vilhjálmsson, Guðný Kristjánsdóttir, Böðvar Jónsson, Steinþór Jónsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Sigríður J. Jóhannesdóttir, Guðný. E. Aðalsteinsdóttir og Ólafur Thordersen.