Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir ungmennaráð og siðareglur
Tillaga um stofnun ungmennaráðs Reykjanesbæjar var samþykkt á bæjarstjórnarfundi nú síðdegis. Einnig var tillaga um siðareglur fyrir kjörna fulltrúa samþykkt.
Fulltrúi Framsóknarflokksins sem er í minnihluta í bæjarstjórn lagði fram tillögurnar sl. haust en þær voru síðan sendar í sérstaka nefnd sem hefur unnið frekar að framgangi þeirra með einhverjum breytingum. „Við erum auðvitað svakalega stolt að þessar tillögur sem við lögðum fram í okkar kosningabaráttu hafi náð fram að ganga, þó við séum bara með einn fulltrúa í bæjarstjórn. Mér þótti við hæfi að standa upp í bæjarstjórnarfundinum og þakka fyrir umfjöllunina og afgreiðsluna í bæjarstjórninni,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, varabæjarfulltrúi framsóknarmanna í Reykjanesbæ.
Markmið siðareglna er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd bæjarfélagsins og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.
Tilgangur með Ungmennaráði Reykjanesbæjar er að UNGÍR, sem er skammstöfun ráðsins, sé bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í bæjarfélaginu og þjálfa ungmenni, yngri en 18 ára í lýðræðislegum vinnubrögðum.
Báðar þessar tillögur voru samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.
Nánar um tillögurnar síðar hér á vf.is.