Bæjarstjórn ræður æðstu stjórnendur en ekki bæjarfulltrúar
„Eins og kemur skýrt fram í 61. grein samþykktar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Voga ræður bæjarstjórn æðstu stjórnendur en ekki bæjarfulltrúar og mótmæli ég því vinnubrögðum forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráð harðlega við uppsögn bæjarstjóra,“ segir Hörður Harðarson, fulltrúi minnihlutans í bæjarráði Voga í bókun á síðasta fundi bæjaráðs.
Þá hefur Hörður óskað eftir upplýsingum um kostnað sveitarfélagsins við bæjarstjóraskipti þ.e. kostnað við starfslok fyrrverandi bæjarstjóra, kostnað staðgengils og áætlaðan kostnað við ráðningu á bæjarstjóra.
Í kjölfar þess að Eirný Valsdóttir hefur látið af störfum sem bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga bókaði meirihluti bæjarstjórnar að skrifstofustjóri er staðgengill bæjarstjóra og mun sjá um daglegan rekstur sveitarfélagsins þar til nýr bæjarstjóri hefur verið ráðinn. Forseti bæjarstjórnar mun sitja fundi sem bæjarstjóri hefur hingað til setið ef þörf krefur. Forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs taka ákvarðanir í þeim málum sem ekki lúta að daglegum rekstri og hafa verið á heldi bæjarstjóra hingað til.
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Bæjarráð felur forseta bæjarstjórar og formanni bæjarráðs að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra.