Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bæjarstjórn mótmælir harðlega niðurskurði á HSS
Miðvikudagur 6. október 2010 kl. 08:29

Bæjarstjórn mótmælir harðlega niðurskurði á HSS


Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mótmælir harðlega fyrirhuguðum tillögum um niðurskurð á grunnþjónustu í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Allir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar skrifuðu undir ályktun þessa efnis sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í gær.

Í ályktuninni segir að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu sé þungt högg fyrir þær þúsundir einstaklinga sem lifað hafi í skugga langvarandi atvinnuleysis og séu að missa heimili sín. Fjárlagatillögurnar séu ávísun á frekara atvinnuleysi 60 -100 manna þar sem heilbirgðisstarfsmönnum verði bætt í raðir atvinnulausra eða vísað úr landi.

Í álkytuninni segir ennfremur:
„Grunnþjónusta við íbúa verður stórlega skert ef fram fer sem horfir. Fæðingardeild og sjúkradeild leggjast af. Heimahjúkrun riðar til falls. Þessar þrjár stoðir og stolt í starfsemi HSS eru að bresta.

Benda má á að framlög ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í samanburði við aðrar heilbrigðisstofnanir hafa hlutfallslega verið -og eru enn- lægri en til annarra heilbrigðisstofnana miðað við íbúafjölda og enn hefur ekki verið tekið mið af nærveru stofnunarinnar við Keflavíkurflugvöll í fjárveitingum til hennar.

Engin sparnaðarrök mæla með því að flytja nærþjónustu við aldraða sjúka, fæðandi konur, hjartasjúklinga, krabbameinssjúklinga, líknandi meðferð deyjandi sjúklinga, lungnasjúklinga, sjúklinga í endurhæfingu og aðra sjúka og langveikra af svæðinu, þegar sýnt hefur verið að þessir þættir eru hagkvæmar reknir á HSS en LSH.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi voru skýrð orð um að vilji stjórnvalda standi til að starfa með íbúum Suðurnesja að lausnum á fjölþættum vanda af efnahagskreppu og atvinnuleysis. Hér er tækifæri til að athafnir fylgi orðum.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á þingmenn Suðurkjördæmis, þingheim allan og Ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir að niðurskurðartillögur þessar verði að veruleika.“

Undir ályktunina skrifuðu allir bæjafulltrúar Reykjanebæjar eins og áður segir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024