Bæjarstjórn mótmælir ákvörðun umhverfisráðherra
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mótmælir harðlega ákvörðun umhverfisráðherra um að fella úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur og krefst þess að hún verði tafarlaust endurskoðuð. Ályktun þessa efnis var lögð fram af Árna Sigfúsyni, bæjarstjóra, og samþykkt á bæjarstjórnarfundi í gær þar sem talsverðar umræður urðu um málið.
Ályktunin er svohljóðandi:
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mótmælir harðlega ákvörðun umhverfisráðherra að tefja enn frekar vinnu við raforkulagnir um Suðurnes og tefla þannig mikilvægri uppbyggingu í atvinnumálum á svæðinu í tvísýnu.
Skatttekjur í sveitarfélögum á Íslandi, á hvern íbúa, eru lægstar í Reykjanesbæ og atvinnuleysi hér er mest á landinu. Þessi napri veruleiki gæti breyst til hins betra, bæði í störfum og launum, um næstu áramót með fyrirhuguðum stórverkefnum á sviði álvinnslu. Undirbúningur hefur staðið yfir s.l. 5 ár og fyrirhugað var að hefja að fullu mannaflsfrekar framkvæmdir eftir 3 mánuði. Þúsundir manna fá þá að nýju atvinnu. Laun í álveri eru umtalsvert hærri en þau meðallaun sem íbúar búa nú við. Með störfum í álveri, kísilveri og gagnaveri getur því orðið kærkomin umbreyting á atvinnuháttum og launum fólks á svæðinu.
Öllu þessu er nú teflt í tvísýnu með ákvörðun umhverfisráðherra. Ákvörðuninni er stefnt gegn tekjulágum einstaklingum og atvinnulausum.
Bæjarstjórn krefst þess að þessi ákvörðun verði tafarlaust endurskoðuð.“
---
VFmynd - Frá Helguvík.