Bæjarstjórn hvetur samningsaðila í tónlistarskóladeilu
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar harmar þá stöðu sem upp er komin í viðræðum tónlistarkennara og launanefndar sveitarfélaga um gerð nýs kjarasamnings. Bókun þess efnis var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa á bæjarstjórnarfundi í gær.
„Það er mjög mikilvægt að verkfall dragist ekki úr hófi því slíkt getur haft afdrífaríkar afeiðingar fyrir þá einstaklinga sem stunda nám við tónlistarskólana. Bæjarstjórn skorar á samningsaðila að leita leiða til þess að ná samkomulagi hið fyrsta svo að koma megi skólastarfi í eðllegan farveg,“ segir í bókuninni sem Guðbrandur Einarsson lagði fram en allir bæjarfulltrúar á fundinum skrifuðu undir. Það voru Gunnar Þórarinsson, Friðjón Einarsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Anna Lóa Ólafsdóttir, Kristinn Jakobsson, Böðvar Jónsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Magnea Guðmundsdóttir, Ingigerður Sæmundsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson.