Bæjarstjórn Grindavíkur leggst gegn fiskveiðistjórnarfrumvarpi
Bæjarstjórn Grindavíkur hefur samþykkt samhljóða bókun vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða og felur bæjarstjóra að senda hana inn í samráðsgáttina en atvinnuveganefnd Alþingis hefur til meðferðar frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.
Bókunin sem bæjarstjórn Grindavíkur hefur samþykkt:
Í frumvarpinu er bráðabirgðaákvæði XXII sem bætist við lögin. Þar er lagt til að ráðstafa bótum til handhafa skel- og rækjubóta með úthlutun aflahlutdeildar að jafngildi 1482 þorskígildistonnum. Þessar bætur verði gerðar upp með varanlegum hætti með því að skerða aflahlutdeild handhafa í króka- og aflamarkskerfinu. Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar mótmælir því að tilteknum bótaþegum verði afhent aflahlutdeild með því að skerða á móti aflahlutdeild annarra aðila í sjávarútvegi. Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt frumvarpsdrögum, sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda í september 2020, var ekki gert ráð fyrir úthlutun aflahlutdeildar til skel- og rækjubótaþega. Þar var þvert á móti gert ráð fyrir afnámi rækju- og skelbóta í hóflegum skrefum á tveggja ára tímabili án þess að annars konar bætur kæmu fyrir. Í fyrirliggjandi frumvarpi er því um kúvendingu að ræða hvað varðar uppgjör á skel- og rækjubótum. Sé það vilji ríkisins að gera upp skel- og rækjubætur þarf það að gerast innan 5,3% veiðiheimildanna en ekki með skerðingu á aflahlutdeild núverandi handhafa aflahlutdeilda.
Í frumvarpinu er því haldið fram að sú skerðing sem hlutdeildarhafar í afla- og krókaaflamarkskerfinu sæti sé svo léttvæg að ekki varði skaðabótum. Að mati bæjarstjórnar Grindavíkur eru hins vegar líkur á því að með skerðingu á aflahlutdeild núverandi handhafa gæti ríkið skapað sér bótaábyrgð með ærnum kostnaði. Að auki gætu þær athafnir skapað varhugaverð fordæmi um frekari íhlutanir og skerðingar. Það er niðurstaða bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar að leggjast gegn frumvarpinu eins og það liggur fyrir og er vísað til framangreindra athugasemda í því sambandi.