Bæjarstjórn Grindavíkur boði til íbúafundar
Páll Valur Björnsson, íbúi í Grindavík, telur einsýnt að bæjarstjórn Grindavíkur boði til íbúafundar og eigi beint samtal við íbúa um hvaða skilaboð bæjarstjórnin er að fara með inn á fundi ríkisstjórnarinnar.
Páll Valur segir löngu kominn tíma á svona fund vegna þess að eitt af grundvallarverkefnum sveitarstjórnarmanna er að hafa samráð og skipuleggja ákvörðunarferla, þar á meðal þátttöku íbúa í ákvörðunartöku.
„Bæjarstjórn ber skylda til að hafa samráð við okkur íbúa um þau skref sem tekin verða um framtíð bæjarfélagsins,“ segir Páll Valur á Facebook síðu sinni.
Hann sagðist jafnframt alveg tilbúinn að gefa ríkisvaldinu svigrúm fram í febrúar til að koma með endanlega niðurstöðu í mál Grindavíkinga.