Bæjarstjórn Grindavíkur ályktar um sameiningu SpKef og Landsbankans
Á fundi Bæjarstjórnar Grindavíkur í gærkvöldi var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
„Sparisjóðurinn í Keflavík, forveri SpKef sparisjóðs, á 100 ára sögu sem ein helsta bankastofnun Suðurnesjamanna og bakhjarl í héraði. Sjóðurinn hafði mjög sterka stöðu í samfélaginu og mikla markaðshlutdeild. Sú mikla markaðshlutdeild náðist með góðri og persónulegri þjónustu, og miklum stuðningi sjóðsins við hin ýmsu samfélagsverkefni. Fall sparisjóðsins er því gríðarlegt áfall fyrir svæðið, bæði fjárhagslega og tilfinningalega.
Um leið og bæjarstjórn Grindavíkurbæjar harmar örlög sparisjóðsins vonast hún eftir góðu samstarfi við Landsbanka Íslands. Bæjarstjórn skorar á stjórnendur Landsbankans að nýta þann mikla mannauð sem býr í starfsfólki sparisjóðsins og halda uppi því þjónustustigi sem íbúar og fyrirtæki á Suðurnesjum hafa vanist. Minnt er á að hagkvæmara getur verið að vinna ýmis bakvinnsluverkefni á Suðurnesjum í stað þess að flytja allt í miðbæ Reykjavíkur. Jafnframt vill bæjarstjórn Grindavíkur hvetja stjórnendur Landsbankans til þess að heimsækja hvert samfélag á Suðurnesjum til að átta sig á mikilvægi þeirrar þjónustu og þess samfélagslega stuðnings sem bankinn þarf að veita.
Grindavíkurbær er í miklum viðskiptum við bæði sparisjóðinn og Landsbanka Íslands og óskar eftir fundi hið fyrsta með forsvarsmönnum bankans til að ræða framtíð þeirra viðskipta.“