Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarstjórn Garðs leggst gegn sölu á Garðvangi
Fimmtudagur 8. október 2015 kl. 14:58

Bæjarstjórn Garðs leggst gegn sölu á Garðvangi

- Vilja að áfram verði hjúkrunarheimili á Garðvangi

Bæjarstjórn Garðs bókaði á fundi sínum í gær að hún leggist gegn því að húsnæði Garðvangs verði selt á meðan unnið er að því að fá fjárheimild hjá ríkinu til uppbyggingar. Í bókun sinni minnir bæjarstjórn á að lóð Garðvangs sé skilgreind fyrir opinbera stofnun og áréttar að þar verði áfram starfrækt hjúkrunarheimili. Garðvangi var lokað í mars í fyrra.

Þá skorar bæjarstjórn Garðs á aðildarsveitarfélög DS (Dvalarheimili aldraðra Suðurnesjum) að fylgja sameiginlega eftir samþykkt aðalfundar DS þann 22. apríl 2015 um uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Garðvangi. Á fundi stjórnar DS 5. október síðastliðinn lögðu fulltrúar Reykjanesbæjar og Voga fram tillögu þess efnis að ef ekki eigi að nýta Garðvang sem hjúkrunarheimili verði húsnæðið selt hið fyrsta. Samþykkt aðalfundar DS 22. apríl 2015 er eftirfarandi:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðalfundur DS hvetur sveitarfélögin á Suðurnesjum til að bregðast við bráðavanda í málefnum sjúkra aldraðra á Suðurnesjum og sameinast um samþykkta tillögu síðasta aðalfundar og einhenda sér í framhaldinu í að ná samningum við heilbrigðisráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins um endurbyggingu og frekari uppbyggingu hjúkrunarheimilisins Garðvangs þannig að þar verði hægt að reka allt að 30 rýma hjúkrunarheimili.