Bæjarstjórn fundar á miðvikudögum
Bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis mun funda fyrsta miðvikudag mánaðar. Þetta var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku.
Daði Bergþórsson, bæjarfulltrúi B-lista, kom með tillögu á fyrsta fundi bæjarstjórnar að bæjarstjórn fundaði á þriðjudögum. Það gerði hann til að tryggja að bæjarfulltrúar fengju fundargögn helgina áður en bæjarstjórnarfundur fer fram. Bæjarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi eru allir í öðrum störfum og verða því að nota frítíma og helgar til að undirbúa sig fyrir fundi.
Tillaga Daða var felld með sex atkvæðum á síðasta fundi bæjarstjórnar. Daði studdi tillöguna en fulltrúar H-listans sátu hjá.
Ólafur Þór Ólafsson, bæjarfulltrúi J-listans, upplýsti á fundinum að þrátt fyrir að fundir verði á miðvikudegi, þá sé stefnan að fundargögn berist bæjarfulltrúum á föstudegi fyrir fundinn með möguleika á að bæta við gögnum á mánudegi í fundarviku.