Bæjarstjórn frestar og hunsar segir Framsókn
Kristinn Jakobsson er ókrýndur ræðukóngur Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Kristinn Jakobsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar segir í samtali við Víkurfréttir að núvernadi meirihluti kjósi að hunsa tillögur og fresta málum í stað þess að taka til umræðu eins og hefð og venja er fyrir í bæjarráði.
Tillaga hans að verklagsreglum um ritun fundargerða var vísað til bæjarráðs á síðasta fundi bæjarstjórnar og hefði að hans sögn átt að vera tekin til afgreiðslu á bæjarráðsfundi í gær en var ekki.
Hann bókaði svohljóðandi vegna þess:
„Ég lýsi undrun minni á að 5. máli síðasta bæjarstjórnarfundar, tillaga að verklagsreglum um fundarritun, sem vísað er til bæjarráðs er ekki tekið til umræðu og afgreiðslu á þessum fundi bæjarráðs eins og hefð er fyrir. Þetta lýsir dæmigerðum starfsháttum núverandi meirihluta. Fresta og hunsa.“
Kristinn hefur verið í hálfgerðu stríði við meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar en hann fékk ekki samþykkt tillögu sína um að fá áheyrnarfulltrúa í nefndir bæjarins sem hann taldi sig eiga rétt á. Til að sýna óánægju sína með þá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar hefur hann komið í ræðustól og tjáð sig um mjög mörg mál sem hafa verið til afgreiðslu á flestum bæjarstjórnarfundum. Á næst síðasta fundi kom hann í ræðupúlt á annan tug skipta. Þetta hefur lengt marga bæjarstjórnarfundi og nokkrir þeirra hafa verið miklu lengri en á síðasta kjörtímabili.