Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarstjórinn í Vogum er hlynntur frekari sameiningu á Suðurnesjum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 30. október 2019 kl. 10:25

Bæjarstjórinn í Vogum er hlynntur frekari sameiningu á Suðurnesjum

„Öll sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum hafa fleiri íbúa en 1.000, svo áhrifa þessarar lagasetningar um lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga mun ekki gæta hér á okkar svæði. Á hinn bóginn er ekkert því til fyrirstöðu að sveitarfélögin skoði sjálf sín á milli, hvort frekari sameining sveitarfélaga í landshlutanum sé fýsilegur kostur. Nærtækt er að líta til nýlegrar sameiningar Garðs og Sandgerðis, sem nú heitir Suðurnesjabær,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Ásgeir segir í pistli sem hann skrifaði að sameinað sveitarfélag Sandgerðis og Garðs sé með ríflega 3.500 íbúa, sem gerir þá stjórnsýslueiningu mun öflugri en forverana til að takast á við þau vandasömu og umfangsmiklu verkefni sem sveitarfélag þarf að sinna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Umræða um eflingu sveitarstjórnarstigsins mun án efa verða áberandi á næstu misserum. Hlutverk sveitarstjórna er að leita hagkvæmustu leiða til að hámarka nýtingu opinbers fjármagns og veita íbúum sínum góða þjónustu. Það á vitaskuld við um allar sveitarstjórnir, óháð íbúafjölda.

Í pistli Ásgeir segir einnig: „Undanfarnar vikur hafa málefni sveitarstjórnarstigsins verið talsvert til umfjöllunar í samfélaginu. Um miðjan ágúst birti Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið drög að þingsályktunartillögu í samráðsgátt stjórnvalda, sem fjallar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Landsþingið samþykkti að mæla með því að Alþingi samþykki fyrirliggjandi þingsályktunartillögu. Stefnumótunin nær yfir tímabilið 2019–2033, en einnig fylgir aðgerðaráætlun fyrir árin 2019–2023. Tillagan gerir ráð fyrir umtalsverðri fækkun sveitarfélaga frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir að þessum markmiðum verði náð með því að lögfesta lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, þannig að þeir verði að lágmarki 250 árið 2022 og 1.000 árið 2026.“