Bæjarstjóri Sandgerðis þakkar fyrir sig
Sigrún Árnadóttir, fyrrum bæjarstjóri Sandgerðis sendi bæjarbúum kveðjuorð á heimasíðu Sandgerðis en hún hefur látið af störfum sem bæjarstjóri nú þegar nýtt sameinað sveitarfélag hefur tekið til starfa. Kveðjuna má lesa hér fyrir neðan.
Kæru bæjarbúar og samferðafólk!
Mig langar til að þakka ykkur öllum hjartanlega fyrir samfylgdina síðastliðin átta ár eða frá því að ég flutti hingað til Sandgerðis og tók við starfi bæjarstjóra. Tíminn hér og samneyti við ykkur hefur verið auðgandi og gefandi og fyrir það er ég og verð ævinlega þakklát. Snemma í vor tók ég ákvörðun um að rétt væri að breyta til og gef því ekki kost á mér til áframhaldandi starfa. Nú er komið að kaflaskilum og nýr bæjarstjóri verður brátt ráðinn til starfa í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs.
Það eru bæði forréttindi og heiður að hafa fengið tækifæri til að vinna að hag samfélagsins þessi ár. Stærsta áskorunin var að snúa við rekstri bæjarfélagsins í kjölfar erfiðra tíma eftir fjármálahrun, áföll og atvinnuleysi, ná tökum á skuldum og veita þá þjónustu sem sveitarfélögum ber að gera. Þetta tímabil hefur verið allt í senn skemmtilegt, krefjandi og lærdómsrík.
Hér hafa allir þurft að taka á því og deila byrðum, bæjarbúar, fyrirtækin í bænum, bæjarfulltrúar og starfsfólk bæjarfélagsins.
Fyrir fjórum árum í lok síðasta kjörtímabils vorum við komin yfir ána miðja. Núna erum við komin vel upp á bakkann handan árinnar og það er bjart framundan: reksturinn er í jafnvægi, skuldir svo gott sem komnar undir sett viðmið og þjónusta hér, leyfi ég mér að segja, til fyrirmyndar. Samfélagið er orðið stærra og sterkara samfélag og atvinnulífið blómstrar.
Hér í Sandgerði hefur valist gott og öflugt fólk til forystu í sveitarstjórnarmálum, fólk sem staðið hefur saman með velferð heildarinnar að leiðarljósi. Ég þakka fráfarandi bæjarstjórn og samstarfsfólki einstaklega gott samstarf og nýrri bæjarstjórn óska ég velfarnaðar.
Ykkur öllum, kæru bæjarbúar sameinaðs sveitarfélags Sandgerðis og Garðs, óska ég gæfu og velgengni um alla framtíð.
Sigrún Árnadóttir,
bæjarstjóri