Bæjarstjóri fer um bæinn og ræðir stöðuna
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur síðustu daga farið á milli stofnana Reykjanesbæjar og átt samtal við starfsfólk bæjarins milliliðalaust. Í morgun var Kjartan Már í Heiðarskóla og ræddi við kennara og stjórnendur skólans á meðan nemendur voru í frímínútum.
Skólamálin brunnu heitast á kennurum í morgun en fram kom á fundinum að kennarar hafa áhyggjur af því að frekari niðurskurður verði. Þá hafa þeir áhyggjur af velferð bæði nemenda og starfsfólks. Fram kom á fundinum að þröngt er orðið um alla starfsemi í Heiðarskóla. Nemendum við skólann fjölgar hratt og fjölmennir árgangar eru að hefja skólagöngu í Heiðarskóla. Þá eru nemendur frá Ásbrú tímabundið í Heiðarskóla en nemendur í 8. til 10. bekk frá Ásbrú stunda sitt nám í Heiðarskóla. Á næsta skólaári verður 8. bekkur kenndur í Heiðarskóla á Ásbrú og svo bætast 9. og 10. bekkir við Háaleitisskóla á næstu tveimur skólaárum þar á eftir.
Bæjarstjóri er hálfnaður í heimsóknum sínum til stofnana bæjarins. Einnig er í boði að fá bæjarstjórann í fyrirtækjaheimsóknir þar sem hann gerir grein fyrir stöðunni og fólki gefst kostur á að leggja fyrir hann spurningar.
Í Sjónvarpi Víkurfrétta á morgun, fimmtudag, verður kíkt með bæjarstjóra í heimsókn í Heiðarskóla og birt viðtal sem tekið var við hann um þessar heimsóknir. Myndin er úr Heiðarskóla frá því í morgun.