Bæjarstjórar á Suðurnesjum funda um alvarlega stöðu
„Gjaldþrot WOW er mikið áfall fyrir samfélagið, og þá ekki síst fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum. Mikill fjöldi starfa tapast, bæði þau sem voru hjá flugfélaginu auk þess sem gjaldþrotið mun hafa djúpstæð áhrif á fjölda afleiddra starfa, sem mörg hver eru staðsett hér í okkar landshluta. Allt mun þetta hafa áhrif á einn eða annan hátt, jafnt til skamms sem langs tíma,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum í pistli sem hann sendi frá sér í morgun.
Ásgeir segir að bæjarstjórar á Suðurnesjum muni funda um helgina um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin og ræða hvaða möguleikar eru til að bregðast við.
„Vonarneistinn er sá að landið okkar fagra er og verður vonandi áfram áhugaverður áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn, með tilheyrandi eftirspurn eftir ferðum til og frá landinu. Svo framarlega sem aðilar í fluggeiranum bregðast við með auknu ferðaframboði vinnast vonandi störf til baka og áhrifin vonandi einungis skammvinn. Við hugsum með hlýhug til þeirra sem nú eiga um sárt að binda vegna atvinnumissis, og vonum að úr rætist fyrr en síðar,“ segir Ásgeir Eiríksson.