Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarrráð segir ný Varnarmálalög fækka störfum á Suðurnesjum
Miðvikudagur 9. júní 2010 kl. 12:53

Bæjarrráð segir ný Varnarmálalög fækka störfum á Suðurnesjum


Bæjarráð Reykjanesbæjar lýsir yfir áhyggjum af frumvarpi um breytingar Varnarmálalögunum, sem nú er til umræðu á Alþingi. Á ályktun sem bæjarráð hefur sent frá sér er skorað á Alþingi að tryggja málinu faglegu og ítarlega umfjöllun þannig að „ekki verði eina ferðina enn um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem fækkar störfum á Suðurnesjum,“ eins og segir í ályktuninni. Bæjarráð telur að með tilfærslu verkefna færist tugir starfa á Suðurnesjum annað.
Frumvarpið er sett fram með vísan til markmiða ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Varnarmálastofnun og færa verkefni hennar til annarra stofnana sem síðar munu mynda hið nýja innanríkisráðuneyti.

„Að óbreyttu kveður frumvarpið á um að utanríkisráðherra verði heimilt að gera verksamninga um rekstrarverkefni við aðrar ríkisstofnanir.  Í frumvarpinu er ekki skýrt kveðið á um hvert verkefnin fari og er því veruleg hætta á að verkefni og tugir starfa sem nú eru unnin á Suðurnesjum færist annað.

Verði frumvarpið samþykkt eru 50 til 100 sérhæfð ársstörf á Suðurnesjum í hættu.  Í frumvarpinu er ekki tryggt að sérhönnuð mannvirki og viðkvæmur búnaður sem er á svæðinu verið áfram nýtt í þágu öryggishagsmuna þjóðarinnar.  Verði ekkert að gert er líklegt að óbreytt frumvarpið muni leiða til enn frekari tilfærslu starfa frá landsbyggð að
Reykjavíkursvæðinu.

Bæjarráð Reykjanesbæjar tekur undir það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um að bæði fagleg og fjárhagsleg rök hnígi að því að þeim verkefnum verið sinnt áfram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, það er hins vegar langt frá því að vera tryggt í frumvarpinu.  Í þessu sambandi nægir að benda á sameiningu Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða, en með þeirri sameiningu stefnir allt í störf verði færð frá Suðurnesjum.

Bæjarráð Reykjanesbæjar tekur undir að hagkvæmt er að flytja Landhelgisgæsluna og aðra borgaralega öryggisstarfsemi á öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli enda eru á svæðinu tugir þúsund fermetrar af ónotuðu húsnæði sem ríkið greiðir fyrir nú þegar en brýnt er að koma strax í arðbæra notkun.
Umræðan um flutning Landhelgisgæslunnar til Keflavíkurflugvallar hófst árið 2006 og hefur henni ekkert miðað áfram þrátt fyrir að öll rök séu með flutningi.

Bæjarráð Reykjanesbæjar skorar á Alþingi að tryggja að málið fái faglega og ítarlega umfjöllun þannig að tryggt verði, að ekki verði eina ferðina enn um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem fækkar störfum á Suðurnesjum,“ segir í orðrétt ályktun Bæjarráðs Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024