Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarráð Voga samþykkir aðgerðaáætlun
Fimmtudagur 23. október 2008 kl. 11:42

Bæjarráð Voga samþykkir aðgerðaáætlun

Bæjarráð sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum í gær aðgerðaáætlun til að bregðast við því ástandi sem komið er upp í efnhagsmálum landsins. Mörg sveitarfélög vinna þessa dagana að slíkri aðgerðaáætlun en nýlega komu fram tilmæli í þá veru frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnamála. Með þeim eru sveitarfélög hvött til að endurskoða fjárhagsáætlanir sínar og gera jafnframt aðgerðaáætlanir þar sem forgangsröðun verkefna miði að því að treysta stoðir grunnþjónustunnar.

Fundur bæjarráðs Voga í gær snerist eingöngu um atburði undanfarinna vikna, efnahagsástandið og fjármál sveitarfélagsins. Nokkur umræða var um níu mánaða uppgjör sveitarfélagsins.

Bæjarráð tekur undir yfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 10. október sl. um að verja grunnþjónustuna. Einnig er tekið undir mikilvægi þess að endurskoða fjárhagsáætlanir og forgangsraða upp á nýtt.

Fyrirsjáanlegt er að tekjur bæjarsjóðs muni minnka það sem eftir lifir af þessu ári og því næsta, vegna minnkandi útsvarstekna og lækkandi framlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Samhliða lækkun tekna er fyrirsjáanlegt að eftirspurn eftir velferðarþjónustu sveitarfélagsins muni vaxa og kostnaður aukast. Kostnaður mun jafnframt aukast vegna gengis- og vísitöluþróunar sem hefur veruleg áhrif á leigugreiðslur sveitarfélagsins og afborganir lána, segir í fundargerð.

Markmið aðgerðgaráætlunarinnar er í meginatriðum að  tryggja grunnþjónustu sveitarfélagsins á sviði félags- og fræðslumála. Fylgst verði grannt með atvinnumálum í sveitarfélaginu og leitast við að tryggja gott atvinnustig í Vogum og á Suðurnesjum.

Áherslur í aðgerðaáætluninni skulu endurspeglast í fjárhagsáætlanagerð allra deilda sveitarfélagsins.

Þrengri fjárhagsstöðu verður að svo stöddu ekki mætt með hækkunum á gjaldskrám fyrir grunnþjónustu eða skerðingu á þeirri þjónustu sem íbúar vænta frá leikskóla, grunnskóla, frístundaheimili og almennri velferðarþjónustu. Skólamáltíðir í Stóru- Vogaskóla verða áfram gjaldfrjálsar.

Engin áform eru um uppsagnir starfsfólks.

Aukins aðhalds verður gætt í innkaupum. Ónýttar fjárheimildir deilda, samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2008, verði ekki nýttar nema brýna nauðsyn beri til. Útgjöld ársins 2009 verða lækkuð um 5% frá þriggja ára áætlun.

Framkvæmdum verður forgangsraðað þannig að framkvæmdir sem geta beðið eða kalla á aukinn rekstrarkostnað verður frestað. Við forgangsröðun verkefna verður tekið mið af áhrifum á atvinnustig.

Ráðgjöf um fjármál og félagsþjónustu til að leiðbeina einstaklingum og fjölskyldum verður efld.

Bæjarráð, sem jafnframt er stjórn Framfarasjóðs Sveitarfélagsins Voga, mun áfram vakta ávöxtun og áhættu sjóðsins.

Hlutverk bæjarráðs er að fylgjast með framgangi þessarar aðgerðaáætlunar og fylgjast reglulega með málum. Sveitarfélagið mun hafa samráð og samstarf við sveitarfélögin og hagsmunaaðila á Suðurnesjum, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldið, segir í fungerð bæjarráðs frá því í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024